552 1400

Viðar Böðvarsson

Framkvæmdastjóri

Húsnæðisverð, kosningar og aldamótakynslóðin

Húsnæðisverð lækkaði í nóvember um 0,9% á fjölbýli og 0,2% á sérbýli. Sumir telja þetta kaflaskil á húsnæðismarkaðnum og framundan séu litlar, jafnvel engar hækkanir og bjartsýnustu menn sjá fram á frekari lækkun. Á sama tíma telja flestir greiningaraðilar að enn sé verulegur skortur á íbúðarhúsnæði. Þetta kemur auðvitað ekki heim og saman.

                                                         ***

Fyrirvari á vísitölu

Vísitala íbúðaverðs er góð vísbending um þróun fasteignaverðs en fleira verður að taka með í reikninginn. Í vísitölunni er ekki leiðrétt fyrir nýjum íbúðum, gæðum og staðsetningu. Því er ekki hægt að horfa á verðbreytingu í einstaka hverfi yfir mánaðartímabil og halda því fram að það séu sannindi.

                                                         ***

Höfðu kosningar áhrif?

Óðinn telur að hugsanlega megi rekja lækkanir á vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í nóvember til alþingiskosninganna 28. október. Kaupsamningum er þinglýst, ekki kauptilboðum. Alla jafna er gengið til kaupsamnings nokkrum vikum eftir að kauptilboð er samþykkt og því koma kaup í október fram í nóvember, jafnvel desember. Útlit var fyrir kosningar strax 15. september þegar ríkisstjórnin sprakk og því kunna kosningarnar einnig að hafa haft áhrif á vísitöluna í októ­ber. Það hefur áhrif á verð enda fylgir óvissa kosningum. Óvissan hefur áhrif á alla þá sem selja vörur, allt frá raftækjum til bíla, því fólk heldur að sér höndum. Að þessu leyti eru þeir sem fjárfesta í íbúðum líkir hefðbundnum fjárfestum.

                                                         ***

Með þessum vangaveltum vill Óðinn ekki gerast spámaður, nóg er af þeim. En staðreyndin er sú að ekkert bendir til þess að fasteignaverð muni lækka.

                                                         ***

Úr 40 í 25%

Þjóðskrá Íslands, sem birtir vísitölu íbúðaverðs, birti áhugaverða greiningu á síðasta ári. Þá voru farnar nokkrar leiðir til að meta skort á íbúðum. Þar var horft til fjölda íbúa í íbúð og hlutfall Íslendinga sem eiga íbúðir.

                                                         ***

Þar kemur fram að hlutfall þeirra sem eiga íbúð á aldrinum 18–35 ára hefur lækkað mjög frá árinu 2008. Frá 2000 til 2008 var hlutfallið stöðugt í 40% en var um 25% árið 2017. Þjóðskrá telur að 8.500 íbúðir vanti til þess að aldurshópurinn 18–34 ára nái sama eignarhluta og var fyrir hrun. Á móti kemur að þetta fólk leigir heldur í dag og þær íbúðir hefðu þá líklega ratað á fasteignasölur. Svo eru margir sem búa lengur á Hótel Mömmu.

                                                         ***

Hlutfallið lægst á Íslandi

Breski bankinn HSBC gerði í fyrra könnun í níu löndum í þessum sama aldurshópi. Þar kemur fram að að meðaltali eiga 40% aldamótakynslóðarinnar (fæddir 1981–1999) eigið húsnæði. Hæst var hlutfallið í Kína, um 70%, en lægst í Sameinuðu arabísku furstadæmunum eða 31%. Í Frakklandi er hlutfallið 41%, í Bandaríkjunum 35% og 31% í Bretlandi. Af þessum tölum sést að hlutfallið er lægst á Íslandi.


Til baka