552 1400

Viðar Böðvarsson

Framkvæmdastjóri

Frumvarp til breytinga á lögum um sölu fasteigna til umræðu á Alþingi

Félag fasteignasala hefur tekið saman hvað í lögunum felst:

Hér að neðan verða raktar stuttlega nokkrar af helstu breytingum sem lögin hafa í för með sér en í mörgu er um algerar grundvallarbreytingar að ræða.

I. Fasteignasölum ber persónulega að sinna öllum grundvallarþáttum milligöngunar.

Með lögunum er sú grundvallarbreyting gerð að einungis fasteignasalar hafa heimild að sinna öllum helstu störfum er varða milligöngu um fasteignaviðskipti. Markmið breytinganna er að tryggja mun ríkari neytendavernd. 

Á undanförnum árum hefur framkvæmd við fasteignasölu víða verið anmörkum háð í skjóli óskýrra laga og sætt harðri gagnrýni. Félag fasteignasala og Neytendasamtökin hafa í sameiningu ítrekað vakið athygli á þörf bættrar stöðu neytenda við fasteignaviðskipti auk þess sem eftirlitsnefnd fasteignasala hefur gert alvarlegar athugasemdir við verklag víða. 

Með hinum nýju lögum eiga neytendur í fasteignaviðskiptum að geta treyst að fasteignasali sinni persónulega öllum meginþáttum fasteignaviðskipta. Má þar m.a. nefna alla ráðgjöf, alla skjalagerð hverju nafni sem nefnist, sitja alla fundi með kaupendum og seljendum, annast skoðun fasteigna, sjá um alfarið um verðmöt, sjá um fjárhagsleg uppgjör ofl. 

Fasteignasalar geta á hinn bóginn haft aðstoðarmenn til að sinna “einföldum almennum störfum” eins og segir í athugasemdum með lögunum. Sú tíð er á hinn bóginn liðin að aðstoðarmenn sinni öllum helstu störfum er varða milligöngu um sölu fasteigna. Með lagabreytingunni er vernd neytenda aukin verulega og ljóst að víða er þörf að breyta starfsháttum í samræmi við breyttar kröfur laganna. 

Vert er að minna á að feli fasteignasali aðstoðarmanni sínum að sinna störfum sem fasteignasala ber að sinna er í því fólgið alvarlegt brot gegn lögum um sölu fasteigna. Afleiðing þess getur orðið svipting starfsréttinda viðkomandi fasteignasala auk þess sem aðstoðarmaður fasteignasalans brýtur gegn lögum um sölu fasteigna með refsiverðum hætti. 

Félag fasteignasala hefur útbúið sérstök skírteini sem félagsmenn geta haft við störf. Eiga neytendur hvenær sem er að geta óskað eftir að sjá slík skírteini auk þess að geta nálgast upplýsingar um félagsmenn FF inni á fasteignir.is og ff.is.

II. Hæfi fasteignasala við störf

Við störf sín hafa fasteignasalar stöðu opinberra sýslunarmenn og ríkar skyldur að gæta að jöfnu hagsmuna kaupanda sem seljanda. Leikreglur til að tryggja hlutleysi hafa verið óskýrar í lögum en siðareglur Félags fasteignasala hafa bætt þar úr.

Með nýju lögunum eru þær breytingar gerðar að sú leið er farin sem stjórnsýslulögin mæla fyrir um varðandi hæfisreglur; 

Fasteignasala er óheimil milliganga um kaup og sölu á fasteign ef: 
a. hann eða maki hans, starfsmaður hans eða maki starfsmanns er eigandi hennar eða verulegs hluta hennar, 
b. hann er eða hefur verið maki eiganda, skyldur eða mægður eiganda í beinan legg eða að öðrum lið til hliðar eða tengdur eiganda með sama hætti vegna ættleiðingar, 
c. hann tengist fyrirsvarsmanni eða umboðsmanni eiganda með þeim hætti sem segir í b-lið
d. að öðru leyti eru fyrir hendi aðstæður sem eru til þess fallnar að draga óhlutdrægni hans í efa með réttu.

III. Neytendur geta óskað álits hvort eigi rétt til skaðabóta 

Sú breyting mun nú verða að verkefni eftirlitsnefndar verða rýmkuð verulega og nefndinni falið það hlutverk að vera einnig kærunefnd. Neytendur geta eftirleiðis kvartað og fengið úrskurð hvort fasteignasali hafi með störfum sínum valdið kæranda fjárhagslegu tjóni og þá hvert það fjárhagslega tjón er. 

Þá er það verkefni einnig falið nefndinni að geta sett fram álit hvort að fasteignasali hafi átt rétt til þóknunar og hver fjárhæð þóknunar skuli vera. 

IV. Sjálfkrafa réttindi lögmanna til fasteignasölu aflögð

Lögmenn hafa getað öðlast réttindi til fasteignasölu á grunni lögmannsréttinda sinna. Með umfangsmiklum breytingum og auknum kröfum á undanförnum árum í námi til löggildingar sölu fasteigna hefur laganámið ekki náð nema að hluta yfir þær kröfur sem nám til löggildingar í fasteignasölu gerir. 
Lögmenn munu eftirleiðis til að öðlast réttindi sem fasteignasalar þurfa að sækja nám til löggildingar í sölu fasteigna en fá metið lögfræðihluta námsins. 

V. Hreint sakavottorð aðstoðarmanna

Sú breyting er gerð að aðstoðarmenn fasteignasala mega ekki hafa hlotið dóm vegna fjármunabrota eða verið dæmdir í fangelsi vegna annarra brota eða ítrekaðra brota á lögum um sölu fasteigna.

VI. Einkaréttur til fyrirtækjasölu afnumin.

Fasteignasalar hafa ekki lengur einkarétt til að sinna milligöngu um fyrirtækjasölu en hafa að sjálfsögðu áfram rétt til að sinna slíkri milligöngu..


Til baka